20.11.2012

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn á Indlandi 20.-26. nóvember

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, verður í opinberri heimsókn á Indlandi dagana 20.-26. nóvember 2012 í boði Meiru Kumar, forseta neðri deildar indverska þingsins. Með þingforseta í för verða alþingismennirnir Unnur Brá Konráðsdóttir og Oddný G. Harðardóttir, ásamt Jörundi Kristjánssyni alþjóðaritara.

Sendinefndin mun heimsækja indverska þingið og meðal annars funda með forseta neðri deildar þingsins og utanríkismálanefnd. Jafnframt mun sendinefndin eiga fundi með forseta Indlands, ráðherra utanríkismála, ráðherra málefna þingsins, menningarmálaráðherra, fjármálaráðherra og ráðherra upplýsingatæknimála.

Þá mun sendinefndin heimsækja borgirnar Chennai og Mumbai og hitta þar ráðamenn. Í Chennai mun Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, opna nýja aðalræðisskrifstofu Íslands og í Mumbai stýrir hún málþingi um frið sem haldið er til að minnast hryðjuverkaárásanna fyrir fjórum árum.