3.4.2013

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Palestínu 3.-7. apríl

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, verður í opinberri heimsókn í Palestínu dagana 3.-7. apríl 2013 í boði palestínska löggjafarþingsins.
 
Forseti mun hitta að máli þingmenn á palestínska löggjafarþinginu ásamt því að eiga fundi með Mahmoud Abbas forseta Palestínu, Salam Fayad forsætisráðherra og Issa Qaraqi, ráðherra málefna fanga.
Jafnframt mun forseti Alþingis kynna sér aðbúnað Palestínumanna í Betlehem, Jerúsalem og Hebron. Á síðastnefnda staðnum mun forseti eiga fund með yfirmanni alþjóða friðargæslunnar.
 
Alþingi fól ríkisstjórninni með þingsályktun hinn 29. nóvember 2011 að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Stjórnmálasambandi var komið á með formlegum hætti 15. desember sama ár og var Ísland fyrst Vestur-Evrópuríkja til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu.