14.10.2013

Haustfundur þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu 13.-15. október í Budva, Svartfjallalandi

Árlegur haustfundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu fer fram í Budva, Svartfjallalandi, dagana 13.-15. október 2013.
 
Þema fundarins er hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) við að standa vörð um mannréttindi um leið og unnið er að vörnum gegn yfirþjóðlegum hættum svo sem skipulagðri glæpastarfsemi þvert á landamæri og hryðjuverkum. Jafnframt fer fram sérstök umræða um ástandið í Sýrlandi.
 
Haustfundinn sækja fyrir hönd Alþingis Elsa Lára Arnardóttir, formaður Íslandsdeildar, Guðmundur Steingrímsson og Pétur H. Blöndal. Mun Pétur H. Blöndal, sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, greina frá þátttöku sinni á fundi fastaráðs ÖSE sem kom saman 10. október sl. í Vín til að ræða fjárlög ÖSE fyrir árið 2014.
 
Allar nánari upplýsingar um haustfundinn er að finna á vef ÖSE-þingsins.