8.11.2013

Forseti Alþingis tekur sæti í undirbúningsnefnd alheimsráðstefnu þingforseta

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hefur verið tilnefndur af Abdelwahad Radi, forseta Alþjóðaþingmannasambandsins, til að taka sæti í undirbúningsnefnd fyrir fjórðu alheimsráðstefnu forseta þjóðþinga sem haldin verður í New York haustið 2015.
Fyrsta alheimsráðstefna þingforseta var haldin í New York árið 2000 í tengslum við samþykkt Þúsaldaryfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem hafði það meðal annars að markmiði að minnka fátækt og hungur, tryggja menntun barna, vinna að jafnrétti kynjanna, lækka dánartíðni barna og efla almennt heilsufar, auk þess að vinna að sjálfbærri þróun og auka samvinnu um þróunarverkefni. Fjórða alheimsráðstefna forseta þjóðþinga, haustið 2015, verður haldin í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um framhald þúsaldarmarkmiðanna.
Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og hefur síðan verið meginvettvangur alþjóðasamstarfs þingmanna. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga flest þjóðþing heims frá 163 löndum, ásamt 10 aukaaðildarríkjum. Alþingi hefur átt aðild að sambandinu frá 1951.