2.4.2014

Fundir á Alþingi í tengslum við fræðsluferð alþjóðlegra samtaka kvenþingmanna til Íslands

Ragnheiður Elín Árnadóttir, Silvana Koch-Mehrin, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Einar K. Guðfinnsson.Alþjóðleg samtök kvenþingmanna, Women in Parliaments Global Forum (WIP), standa fyrir fræðsluferð til Íslands til að kynna sér árangur sem náðst hefur hér á landi í jafnrétti kynjanna og stjórnmálaþátttöku kvenna. Í tengslum við fræðsluferðina verða haldnir fundir í Alþingishúsinu með íslenskum kvenþingmönnum og ráðherrum 3. og 4. apríl.

Upptaka af ávarpi Vigdísar Finnbogadóttur við upphaf funda alþjóðlegra samtaka kvenþingmanna í AlþingishúsinuFimmtudaginn 3. apríl hefst dagskráin í Alþingi með upptöku af ávarpi Vigdísar Finnbogadóttur. Fundur hefst svo kl. 9.30 í þingsalnum með ávarpi Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis. Einnig ávarpar Silvana Koch-Mehrin, stofnandi WIP-samtakanna, fundargesti. Að því loknu hefjast umræður um hvað þurfi til að ná framúrskarandi árangri í jafnréttismálum. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata, og Jamshed M. Kazi, framkvæmdastjóri þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna í Ósló, halda erindi en Brynhildur Pétursdóttir, varaformaður þingflokks Bjartrar framtíðar, stýrir umræðunum.
Föstudaginn 4. apríl hefst fundur í Alþingishúsinu kl. 14. Þá verður rætt um leiðir til að vinna gegn staðalímyndum kynjanna. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svæðisstjóri UN Women í Evrópu og Mið-Asíu, Ana Gabriela Guevara Espinoza, þingmaður frá Mexíkó, og Natalia Vicente Roldan, sérfræðingur í upplýsingatækni, flytja erindi en Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, stýrir umræðunum.Þingkonur víðsvegar að úr heiminum á fundi alþjóðlegra samtaka þingkvenna (WIP) í þingsalnum

Klukkan 16 hefjast umræður um hvaða lærdóm má draga af árangri sem náðst hefur á Íslandi í jafnrétti kynjanna og stjórnmálaþátttöku kvenna og hvort hægt sé að yfirfæra leiðir sem farnar voru á Íslandi á önnur heimssvæði. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, Jakob Kopperud, frá Alþjóðabankanum, og Frances Rosenbluth, prófessor við Yale-háskólann, flytja erindi en Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stýrir umræðunum.

Samtökin Women in Parliaments Global Forum munu veita Vigdísi Finnbogadóttur „WIP Award for Lifetime Achievements in Female Political Empowerment“ og tekur hún við viðurkenningunni föstudaginn 4. apríl.


Dagskrá fræðsluferðarinnar.