14.5.2014

Forseti Alþingis heimsækir Noreg í tilefni 200 ára afmælis Stórþingsins

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, heimsækir Noreg 15. maí í boði Olemics Thommessens, forseta norska Stórþingsins, og er viðstaddur hátíðarfund í Stórþinginu í tilefni 200 ára afmælis þingsins og stjórnarskrár Noregs, sem samþykkt var á Eiðsvöllum 17. maí 1814.

Forseti Alþingis færir forseta norska Stórþingsins gjöf á 200 ára afmæli

Forseti Alþingis afhenti gjöf frá Alþingi Íslendinga til norska Stórþingsins í tilefni þessara tímamóta. Gjöfin er endurgerður handritshluti Konungsbókar Grágásar á kálfskinni sem varðveitir fyrsta samning Íslendinga við erlent ríkisvald; saminginn við Ólaf konung helga Haraldsson um gagnkvæm réttindi Íslendinga og Norðmanna í löndunum tveimur. Endurgerð handritsins var í umsjón sérfræðinga, meðal annars frá Árnastofnun.

Til viðburðarins er boðið öllum þingforsetum Norðurlanda og munu þeir, að loknum hátíðarfundi, halda sérstakan fund þar sem aðalumræðuefnið verður norrænt samstarf og hvernig þjóðþing Norðurlanda geta eflt samvinnu sín á milli.