18.8.2014

Fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sækir árlegan fund forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem haldinn verður í Palanga í Litháen, í boði litháíska þingsins, 18.-20. ágúst 2014.
Sérstakur gestur á fundinum er forseti úkraínska þingsins og mun hann gera grein fyrir stöðu mála í Úkraínu.

Þingforsetarnir munu meðal annars ræða það sem efst er á baugi í stjórnmálum og starfi þjóðþinganna á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum. Einnig verður sérstök umræða um svæðisbundin varnarmál og stöðu efnahagsmála í Evrópu.

Forseti Alþingis flytur framsögu um stefnumótun í málefnum norðurslóða og gerir grein fyrir störfum undirbúningshóps um alheimsráðstefnu þingforseta sem fyrirhugað er að halda haustið 2015.