29.9.2014

Forseti Alþingis sótti fund þingforseta evrópskra smáríkja í Andorra

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sótti fund forseta þjóðþinga evrópskra smáríkja sem haldinn var í Andorra 25.-26. september 2014 í boði Vincenç Mateu, forseta þingsins í Andorra. Ásamt gestgjafa og forseta Alþingis sóttu fundinn þingforsetar og fulltrúar þjóðþinga frá Liechtenstein, Lúxemborg, Möltu, Mónakó, San Marínó og Svartfjallalandi. Sérstakir gestir voru prófessorar og fræðimenn frá háskólanum í Barcelona sem fluttu framsöguerindi um hlutverk smáríkja í alþjóðlegu samstarfi, viðbrögð minni ríkja við efnahagskreppunni og áskoranir í stjórnsýslu smáríkja.Forsetar þjóðþinga evróskra smáríkja
Forseti Alþingis gerði grein fyrir stöðu efnahags- og þjóðmála á Íslandi og viðbrögð ríkja, einkum minni ríkja, við efnahagskreppunni. Þá gerði hann að umtalsefni mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og milliríkjaviðskipta á grundvelli fullveldisréttar þjóða. Jafnframt ræddi hann minnkandi kosningaþátttöku og nýjar leiðir almennings til virkrar þátttöku í stjórnmálum, svo sem fyrir tilstilli samfélagsmiðla, ásamt trausti á stofnunum og stjórnsýslu. Forseti Alþingis kynnti fyrir fundargestum starf Rannsóknarseturs um smáríki við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem vakti áhuga, m.a. gesta frá háskólanum í Barcelona sem lýstu áhuga á samstarfi um smáríkjarannsóknir.