7.11.2014

Ávarp forseta Alþingis í tilefni 25 ára afmælis falls Berlínarmúrsins

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, flutti í dag setningarávarp fjölþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Berlín helgina 7.-10. nóvember í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins.

Forseti Alþingis flytur ávarp í Berlín
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Í ávarpinu lagði forseti Alþingis út af þeim grundvallarmun sem var á þjóðfélagskerfum kommúnismans og hinum frjálsu lýðræðisríkjum Vesturlanda. Gerði hann grein fyrir innbyggðum veikleikum áætlunarbúskapar og þeim árangri sem náðst hefur í Austur-Evrópu á þeim aldarfjórðungi sem löndin hafa verið frjáls. Sagði forseti Alþingis fall Berlínarmúrsins vera sterka táknmynd í huga fólks um hrun hugmyndafræði kommúnismans.

Einari K. Guðfinnssyni var boðið að vera einn aðalræðumanna og flytja setningarávarp ráðstefnunnar sem skipulögð er af Institute for Cultural Diplomacy. Félagasamtökin Institute for Cultural Diplomacy voru stofnuð árið 1999 með það að markmiði að stuðla að samræðum milli menningarheima og vinna að friði. 
Forseti þýska SambandsþingsinsÞá heimsótti forseti Alþingis Bundestag, Sambandsþing Þýskalands, og átti fund með forseta þess, dr. Norbert Lammert. Ræddu þeir tvíhliða samskipti ríkjanna og þjóðþinganna og stöðuna í efnahags- og öryggismálum í Evrópu. Dr. Lammert sótti Ísland heim árið 2011 og lýsti hann ánægju með þann árangur sem náðst hefur í endurreisn efnahags Íslands. Forseti Alþingis gerði grein fyrir stefnubreytingu nýrrar ríkisstjórnar og þingmeirihluta í Evrópusambandsmálum og lagði áherslu á áframhaldandi gott samstarf við ESB-ríkin á grundvelli EES-samningsins og tvíhliða samskipta. Þá ræddu þingforsetarnir horfur í efnahagsmálum í Evrópu og stöðuna að loknum kosningum í Úkraínu.
Ávarp forseta Alþingis