27.10.2015

Norrænir þingforsetar funda í Alþingi

Forsetar norrænu þjóðþinganna, ásamt forsetum lögþings Álands og Færeyja, sækja 67. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík og komu saman til sérstaks fundar í Alþingi af því tilefni.  Á fundinum ræddu þingforsetarnir framtíð norræns samstarfs og hvernig má efla samstarf norrænu ríkjanna, ekki síst í ljósi áskorana í loftslagsmálum og ýmissa ógna sem ríkin standa frammi fyrir.  

Fulltrúar Stjórnsýsluhindranaráðs norrænu ráðherranefndarinnar komu á fund forsetanna og gerðu grein fyrir tillögum sem miða að því að tryggja frjálst flæði vinnuafls og auðvelda fyrirtækjum starfsemi innan allra norrænu ríkjanna.  Þá var Ann Brasseur, forseti Evrópuráðsþingsins, sérstakur gestur fundar og ræddi við þingforsetana samstarf Evrópuráðsþingsins og norrænu þjóðþinganna við að efla lýðræði, réttarríkið og mannréttindi; einkum í Úkraínu. Þá ræddu þingforsetarnir flóttamannavandann og hlutverk og ábyrgð þjóðþinganna við að takast á við hann.

Fundur norrænna þingforseta