16.10.2015

Málstofa á vegum Vestnorræna ráðsins

Vestnorræna ráðið bauð þeim þingmönnum sem sækja ráðstefnuna Arctic Circle í Hörpu til hádegisfundar á fyrsta fundadegi ráðstefnunnar í dag til að ræða þörfina fyrir aukinni þátttöku þjóðþinga í málefnum norðurslóða. Fundinn sóttu þingmenn frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Bandaríkjunum, Nunavut í Kanada og Danmörku. Markmið fundarins er að auka samstarf þingmanna um málefni norðurslóða og hvetja þjóðkjörna fulltrúa til að beita sér fyrir aukinni umræðu um hið mikilvæga hlutverk þjóðþinga þegar kemur að stefnumótun á svæðinu.

Á ráðstefnunni stendur Vestnorræna ráðið fyrir málstofu um lýðræði á norðurslóðum í dag föstudaginn 16. október kl. 16:30. Fyrirlesarar eru Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður, Kuupik Kleist, fyrrum forsætisráðherra Grænlands og Dalee Sambo Dorough, lektor við Alaska-háskóla í Bandaríkjunum.

Unnur Brá Konráðsdóttir ávarpar gesti á þingmannafundi á Arctic Circle ráðstefnunni

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, ávarpar gesti á þingmannafundi á Arctic Circle ráðstefnunni.