16.10.2015

Þing Alþjóða­þingmannasambandsins í Genf 17. - 21. október

133. þing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) er haldið í Genf dagana 17. - 21. október 2015.

Helstu umræðuefni þingsins verða m.a. hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja samstarf á heimsvísu gegn ógn við lýðræði og hvernig tryggja megi vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns. Þá verður ályktun um lýðræðið á stafrænum tímum og ógnir gagnvart friðhelgi einkalífsins og einstaklingsfrelsis tekin til umræðu og afgreiðslu. Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Íslandsdeildar IPU, er annar tveggja ályktunarhöfunda.

Árlegur kvennafundur verður haldinn 17. og 20. október, í tengslum við þingið þar sem m.a. verður rætt um flóttamenn og konur, ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og framlag kvenna til starfsemi IPU. Þá fer fram almenn umræða um málefni innflytjenda sem ber yfirskriftina Mikilvægi siðferðilegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari, skynsamlegri og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn.

Þingið sækja fyrir hönd Alþingis Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður Íslandsdeildar IPU, Ásmundur Einar Daðason varaformaður og Birgitta Jónsdóttir.