21.10.2015

Fréttamannafundur vegna 67. þings Norðurlandaráðs

Fréttamannafundur Íslandsdeildar Norðurlandaráðs vegna 67. þings Norðurlandaráðs verður haldinn í Alþingishúsinu miðvikudaginn 21. október kl. 12:00.

Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, mun kynna dagskrá 67. Norðurlandaráðsþings sem haldið verður í Hörpu 27.–29. október 2015. Meginþema þingsins er norræn framtíðarsýn og alþjóðamál. Fulltrúar á þinginu verða forsætisráðherrar, aðrir ráðherrar og þingmenn frá öllum norrænu ríkjunum og sjálfstjórnarsvæðunum.​ Höskuldur mun jafnframt kynna tillögur forsætisnefndar um breyttar áherslur í starfi Norðurlandaráðs. Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í Hörpu 27. október kl. 19:30 og verðlaunaathöfnin send beint út í sjónvarpi á RÚV. 

Meðal fundarefna og viðburða á Norðurlandaráðsþingi og í tengslum við það má nefna:

  • ​Umræða um flóttamenn og viðbrögð Norðurlandaþjóðanna og annarra Evrópuþjóða verður mánudaginn 26. október kl. 16:00–17:30 í Kaldalóni í Hörpu. Norðurlandaráð hefur boðið tveimur sérfræðingum um málefni flóttamanna til fundarins og munu þeir leiða umræðuna og í kjölfarið verða umræður. Fyrirlesararnir eru Jean-Christophe Dumont frá OECD og Roderick Parkes frá stofnun Evrópusambandsins um rannsóknir í öryggismálum (European Union Institute for Security Studies).
  • Umræður norrænu forsætisráðherranna og leiðtoga Færeyja, Grænlands og Álandseyja verða í Silfurbergi þriðjudaginn 27. október kl. 14:45–16:30 um framtíðarsýn í norrænu samstarfi.
  • Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs þriðjudaginn 27. október kl. 19:30 í Eldborg. Bein sjónvarpsútsending á RÚV.
  • Óundirbúinn fyrirspurnatími norrænu umhverfisráðherranna miðvikudaginn 28. október kl. 11–12. Gera má ráð fyrir umræðum m.a. um loftslagsmál og fyrirhugaða alþjóðlega loftslagsráðstefnu í París í desember.
  • Umræður með norrænu utanríkisráðherrunum um alþjóðamál verða 28. október kl. 14:00–16:30 ásamt Christian Friis Bach, framkvæmdastjóra efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Meðal umræðuefna verða málefni Úkraínu, öryggismál og flóttamenn.

Nánari upplýsingar um dagskrá Norðurlandaráðsþings og verðlaunaafhendinguna er að finna á vef Norðurlandaráðs, norden.org.

Allir fjölmiðlamenn, þurfa að skrá sig fyrir 23. október ætli þeir að sækja fundi Norðurlandaráðsþings í Hörpu og verðlaunaafhendinguna. Yfirlit yfir blaðamannafundi á Norðurlandaráðsþinginu.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa: Höskuldur Þórhallsson, formaður, Ólína Þorvarðardóttir, Elín Hirst, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Gunnarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.