26.10.2015

Norðurlandaráðsþing í Reykjavík – Verðlaun Norðurlandaráðs

67. þing Norðurlandaráðs verður sett kl. 14:30 þriðjudaginn 27. október í Hörpu og stendur til 29. október. Þingið hefst með ávarpi forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, og ávarpi forseta Norðurlandaráðs, Höskuldar Þórhallssonar. Í kjölfarið hefst leiðtogafundur norrænu forsætisráðherranna um möguleika á auknu og nánara samstarfi Norðurlanda. Þá verða kynntar skýrslur norrænu samstarfsráðherranna um afnám stjórnsýsluhindrana. Því næst kynnir forsætisráðherra Finnlands formennskuáætlun Finna í Norrænu ráðherranefndinni 2016.

Meginþema þingsins er norræn framtíðarsýn og alþjóðamál en meðal fundarefnis má nefna óundirbúinn fyrirspurnatími norrænu umhverfisráðherranna sem verður miðvikudaginn 28. október kl. 11–12. Gera má ráð fyrir umræðum m.a. um loftslagsmál og fyrirhugaða alþjóðlega loftslagsráðstefnu í París í desember. Sama dag kl. 14:00–16:30 verða umræður með norrænu utanríkisráðherrunum um alþjóðamál, ásamt Christian Friis Bach, framkvæmdastjóra efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Meðal umræðuefna verða málefni Úkraínu, öryggismál og flóttamenn. 

Handhafar verðlauna Norðurlandaráðs verða kynntir við verðlaunaafhendinguna í Eldborg í Hörpu 27. október kl. 19:30. Fimm verðlaun verða afhent: bókmenntaverðlaun, barna- og unglingabókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Nánari upplýsingar, m.a. um tilnefningar, er að finna á vef Norðurlandaráðs. Bein sjónvarpsútsending verður frá verðlaunaafhendingunni á RÚV.

Nánari upplýsingar um dagskrá Norðurlandaráðsþings og verðlaunaafhendinguna er að finna á vef Norðurlandaráðs, norden.org.

Fulltrúar á þinginu verða forsætisráðherrar, aðrir ráðherrar og þingmenn frá öllum norrænu ríkjunum og sjálfstjórnarsvæðunum.​ Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa: Höskuldur Þórhallsson, formaður, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Elín Hirst, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Gunnarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Bein útsending verður frá Norðurlandaráðsþingi á vef og sjónvarpsrás Alþingis og jafnframt á vef Norðurlandaráðs.

Yfirlit yfir blaðamannafundi á þingi Norðurlandaráðs: http://www.norden.org/is/nordurlandarad/thing-og-fundir/thing/67.-session-2015/upplysingar-fyrir-fjoelmidla/bladamannafundir

Nánari upplýsingar veitir Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, sími 848 4805.

Fjölmiðlafólk sem hyggst sækja blaðamannafundi og aðra viðburði á þinginu er minnt á að framvísa þarf gildu blaðamannaskírteini til að fá aðgangskort sín afhent.