8.2.2016

Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB

Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB hefst kl. 10.00 9. febrúar í Hörpu. Á fundinum verður m.a. fjallað um samskipti Íslands og ESB, Schengen og flóttamannavandann í Evrópu, viðbrögð við fjármálakreppunni, samstarf um fiskveiðar og fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna.

Fundurinn er opinn fjölmiðlum.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB var stofnuð árið 2010 eftir að aðildarviðræður Íslands við ESB hófust. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum var hætt árið 2013 var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist á árunum 1987–2010 en þá áttu Alþingi og Evrópuþingið árlega samráðsfundi.

Af hálfu Alþingis sækja fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, starfandi formaður, Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson.