29.2.2016

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Kýpur

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, var í opinberri heimsókn á Kýpur 25.–27. febrúar í boði Yiannakis L. Omirou, forseta Kýpurþings.

Auk fundar með forseta Kýpurþings  átti  forseti Alþingis fund með Nicos Anastasiades, forseta Kýpur, Harris Georgiades fjármálaráðherra, fulltrúum í utanríkis- og fjármálanefnd, Eleni Loucaidou, aðstoðarborgarstjóra Nikósíu, og Alexis Galanos, borgarstjóra Famagusta.

Á meðan heimsókninni stóð héldu þingforsetarnir blaðamannafund þar sem þeir gerðu grein fyrir fundi sínum þar sem þeir ræddu meðal annars sameiginlega reynslu Íslands og Kýpur af því að ganga í gegnum sársaukafulla efnahagskreppu og leiðir út úr efnahagsörðugleikunum, en bæði lönd þurftu að grípa til gjaldeyrishafta. 

Einnig gerði kýpverski þingforsetinn forseta Alþingis grein fyrir stöðu mála í viðræðum Kýpverja við leiðtoga tyrkneska hluta Kýpur um sameiningu eyjarinnar, en norðurhluti eyjarinnar var hernuminn af Tyrkjum 1974.  Þá lögðu þingforsetarnir báðir áherslu á mikilvægi góðra samskipta þjóðþinga Íslands og Kýpur en bæði lönd taka þátt í samstarfi þingforseta evrópskra smáríkja.

Blaðamannafundur á Kýpur