2.3.2016

Fundir forseta Alþingis í Lundúnum og Wales

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, og alþingismennirnir Þórunn Egilsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson eru í vinnuheimsókn í Bretlandi, í boði vinahóps Íslands á breska þinginu og Bretlandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.

Vinnuheimsókn til Bretlands

Forseti Alþingis og þingmannasendinefndin með John Bercow, forseta breska þingsins.

Í gær átti forseti Alþingis og þingmannasendinefndin fund með John Bercow, forseta breska þingsins.  Ræddu þau samskipti þjóðþinganna og voru forsetar þjóðþinganna sammála um mikilvægi þess að gæta að sjálfstæði löggjafarvaldsins. Einnig áttu forseti Alþingis og þingmenn fund með Evrópumálaráðherra Bretlands, David Liddington, sem gerði grein fyrir samkomulagi Bretlands og ESB um sérstaka stöðu landsins innan sambandsins og fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild Bretlands að ESB.  Fyrr um daginn átti forseti Alþingis og þingmenn fund með talsmanni utanríkismálanefndar breska þingsins um Evrópumálefni, nefnd um málefni flóttamanna og fulltrúa í nefnd um málefni Wales.

Vinnuheimsókn til Bretlands

 Íslenska sendinefndin ásamt barónessu D'Souza, forseta lávarðardeildarinnar. 

Í fyrradag átti forseti Alþingis og íslensku þingmennirnir fund með barónessu D'Souza, forseta lávarðadeildarinnar.  Einnig hittu þau að máli leiðtoga þingflokka á breska þinginu og nefnd um málefni Norðurslóða.  Þá átti forseti Alþingis og þingmenn fund með Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins og John Mc'Donnell, skuggafjármálaráðherra stjórnarandstöðunnar. Gerði Corbyn grein fyrir nýjum áherslum flokksins eftir að hann varð formaður, meðal annars andstöðu við niðurskurð.

Í dag mun forseti Alþingis og alþingismenn eiga fundi í Velska þinginu með forseta Walesþings og fulltrúum þingflokka en í vor fara fram þingkosningar í Wales.

Vinnuheimsókn til Bretlands

Fundur með Jeremy Corbyn og fleiri þingmönnum breska þingsins.