22.8.2016

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sótti aldarfjórðungsafmæli endurreists sjálfstæðis Eistlands og Lettlands

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sótti aldarfjórðungsafmæli endurreists sjálfstæðis Eistlands og Lettlands í boði Eika Nestors, forseta eistneska þingsins, og Ināru Mūrniece, forseta lettneska þingsins, 20. og 21. ágúst 2016. Ísland var fyrsta landið til að viðurkenna endurreist sjálfstæði hinna nýfrjálsu ríkja við Eystrasaltið.
Forseti Alþingis flytur ávarp á hátíðarhöldum í Eistlandi 2016Á hátíðarfundi eistneska þingsins flutti forseti Alþingis ávarp og færði eistnesku þjóðinni kveðjur Alþingis og íslenskrar þjóðar. Gerði hann að umtalsefni mikilvægi sjálfstæðis og fullveldis, og að ekki bæri að taka slíkt sem gefið – jafnvel á 21.  öldinni – þegar fullveldisréttur, landamæri og réttur ríkja að alþjóðalögum væri fótum troðinn, meira að segja í Evrópu. 
Hátíðarhöld í Riga 2016Við hátíðarathöfn við Frelsisminnismerkið í Ríga, höfuðborg Lettlands, bar forseti Alþingis krans að minnismerkinu og flutti ávarp. Hann minntist þeirra þúsunda sem voru nauðungafluttir frá Lettlandi á tímum Sovétríkjanna og einkum þeirra hugrökku Letta sem létu lífið í sjálfstæðisbaráttu Lettlands 1991. Einar K. Guðfinnsson gerði að sérstöku umtalsefni þátt Jóns Baldvins Hannibalssonar og ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar en Ísland varð fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna sjálfstæði hinna nýfrjálsu Eystrasaltsríkja.