16.9.2016

Fundur forseta Alþingis og forseta Evrópuráðsþingsins

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, átti í dag fund með Pedro Agramunt, forseta Evrópuráðsþingsins í Strassborg. Forseti Alþingis bauð Agramunt formlega að sækja Ísland heim í tengslum við fund stjórnmála- og lýðræðisnefndar Evrópuráðsþingsins, sem haldinn verður í Hörpu síðar í mánuðinum. Forseti Evrópuráðsþingsins þáði boðið um opinbera heimsókn og þakkaði stuðning Alþingis við herferð Evrópuráðsins gegn fordómum og útlendingaandúð. Ræddu þeir starf samtakanna og mikilvægi þátttöku þingmanna í starfi alþjóðastofnana.

Forseti Alþingis hefur setið ráðstefnu forseta þjóðþinga aðildarríkja Evrópuráðsins sem haldin er í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Strassborg 15.-16. september og tekið þátt í umræðum um þau mál sem eru á dagskrá. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.Fundur forseta Alþingis með forseta Evrópuráðsþingsins