24.3.2017

Jafnréttismál sett á dagskrá fundar þingforseta í San Marínó

Jóna Sólveig Elínardóttir, 2. varaforseti Alþingis og formaður utanríkismálanefndar, sótti árlegan fund forseta þjóðþinga evrópska smáríkja sem haldinn var í San Marínó 21.–23. mars 2017.

Á dagskrá fundar var meðal annars umræða um flóttamannavandann og hlutverk smáríkja, áhrif og takmarkanir smáríkja í alþjóðasamstarfi og að síðustu sérstaða smáríkja sem áfangastaðar ferðamanna.

Jóna Sólveig lagði áherslu á mikilvægi þess að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi við opinbera stefnumótun og kynnti fyrir þátttakendum „rakarastofuverkefnið“ (Barbershop Conference) sem Ísland, ásamt Súrínam, átti frumkvæði að og snýst um að virkja karla í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Einnig kynnti hún fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn kynbundnum launamun með jafnlaunavottun.

Jóna Sólveig lagði fram nokkrar breytingartillögur við lokayfirlýsingu, sem voru samþykktar samhljóða, með það að markmiði að setja jafnréttismál í brennidepil.  Snéru þær að mikilvægi þess að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi gagnvart flóttamönnum og gæta sérstaklega að réttindum fylgdarlausra ungmenna í hópi flóttamanna; að leggja áherslu á mikilvægi þátttöku kvenna í opinberri umræðu og stefnumótun og að opinber stefnumótun taki mið af kynjasjónarmiðum.  Þá lögðu þingforsetar, að tillögu Jónu Sólveigar, áherslu á hin augljósu tengsl kynjajafnréttis og virks lýðræðis. Lokayfirlýsing fundarins.

Fundurinn er árlegur samráðsvettvangur þjóðþinga evrópskra smáríkja, með íbúafjölda undir einni milljón, sem eru aðilar að Evrópuráðinu. Að þessum vettvangi þjóðþinga eiga aðild, auk Alþingis, þjóðþing Andorra, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborgar, Möltu, Mónakó, San Marínó og Svartfjallalands.

Fundur þingforseta í San Marínó