1.9.2017

Ályktanir frá ársfundi Vestnorræna ráðsins

Ársfundur Vestnorræna ráðsins , samstarfsráðs þjóðþinga Íslands, Færeyja og Grænlands, samþykkti í dag að beina því til stjórnvalda landanna þriggja að vinna sam­eig­in­lega að rann­sókn á um­fangi örplasts í lífverum hafsins og plastmengunar almennt í Norður-Atlantshafi. Óskað er eftir að niðurstöður rannsóknarinnar verði lagðar fyrir Vestnorræna ráðið á árinu 2018. Jafnframt er mælst til þess að stjórnvöld landanna vinni saman að því að draga út notkun plasts og örplasts á Vestur-Norðurlöndum og vinni gagngert gegn notkun örplasts í framleiðsluvörum, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Í ályktun ráðsins er bent á þá alvarlegu ógn sem plastmengun er fyrir hafið og þar með lífsviðurværi Vestur-Norðurlanda sem reiða sig að stórum hluta á auðlindir hafsins.  

Á fundinum var einnig samþykkt að beina því til stjórn­valda land­anna þriggja að vinna að grein­ingu á möguleikunum til aukins samstarfs Vestur-Norðurlanda um menntun á sviði sjávarútvegs, á öllum stigum náms. Sérstök áhersla er lögð á þekkingu er varðar fullnýtingu sjávarafurða, fisktækni og nýsköpun. Löndin þrjú hafi öll yfir sérþekkingu að búa á ákveðnum sviðum sjávarútvegs sem þau geti deilt sín á milli. Jafnframt standi þau frammi fyrir svipuðum áskorunum á mörgum sviðum sjávarútvegs.

Loks var samþykkt að beina því til stjórnvalda landanna að setja á fót vinnuhóp sérfræðinga á sviði menningarmála sem fengi það hlutverk að vinna að útgáfu sameiginlegrar vestnorrænnar vísu- og söngbókar.

Ársfundurinn var haldinn í Alþingi 31. ágúst og 1. september.

Þjóðþing landanna þriggja skipa sex fulltrúa hvert í Vestn­or­ræna ráðið. Bryndís Haraldsdóttir er formaður Íslandsdeildar en auk Bryndísar skipa Íslands­deild ráðsins Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, Eygló Harðardóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Einar Brynjólfsson og Pawel Bartoszek. 

Atkvæðagreiðsla á ársfundi Vestnorræna ráðsins