22.2.2018

Undirritun samstarfsyfirlýsingar um heimsþing kvenleiðtoga á Íslandi

Ríkisstjórn Íslands, Alþingi og heimssamtök kvenleiðtoga – WPL, Women Political Leaders Global Forum, hafa gert með sér samkomulag um að halda heimsþing kvenleiðtoga á Íslandi á árunum 2018–2021. Heimsþing samtakanna, og ársfundur, var haldið í fyrsta skipti á Íslandi í nóvember 2017 og sóttu þingið yfir 400 kvenleiðtogar frá um 100 löndum. Var það fjölmennasta heimsþing sem samtökin hafa haldið frá stofnun.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, undirritaði í dag samstarfsyfirlýsingu milli Alþingis, ríkisstjórnar Íslands og heimssamtaka kvenleiðtoga, WPL, um að heimsþingið skuli haldið áfram á Íslandi næstu fjögur ár. Til þingsins verður boðið alþjóðlegum kvenleiðtogum úr stjórnmálum, auk kvenleiðtogum úr viðskiptum, menningu, vísindum, tækni og fleiri sviðum þjóðlífsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Silvana Koch-Mehrin, stofnandi WPL, fyrir hönd samtakanna.Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Silvana Koch-Mehrin, stofnandi WPL