1.11.2018

Bókargjöf frá Stórþinginu í tilefni af fullveldisafmæli

Alþingi hefur fengið að gjöf frá norska Stórþinginu íslenska þýðingu á bókinni Landnám Íslands frá Noregi eftir Þormóð Torfason, í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands 2018. Gjöfina afhenti Tone W. Trøen, forseti Stórþingsins, Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, í tengslum við þing Norðurlandaráðs og fund norrænna þingforseta í Ósló. Bókina Historia rerum Norvegicarum skrifaði Þormóður Torfason á latínu um 1700 og íslensku þýðinguna gerði Gottskálk Jensson, sem starfar sem lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Hann ritar einnig eftirmála.

Þormóður lærði latínu í uppvexti sínum á Stafnesi á Rosmhvalanesi og fór tólf ára gamall í Skálholtsskóla. Þaðan hélt hann til náms í Kaupmannahöfn og varð síðar fornritaþýðandi í þjónustu Friðriks VIII Danakonungs með aðsetur í konungshöllinni. Hann skrifaði fjölda bóka um sögu Norðurlanda, allar á latínu.

Í gjafaskjali sem fylgir bókinni frá Stórþinginu segir að á milli Íslands og Noregs séu þéttofin söguleg bönd og mikilvæg sameiginleg saga, sem lýst sé í verki Þormóðs. Sögulega sé Historia rerum Norvegicarum á meðal þeirra verka sem brúa bilið á milli hinnar eldri Íslendingasagnahefðar og sagnfræðilegra rannsókna nútímans.

Gjof-fra-Storthinginu-okt-2018
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tekur við gjöfinni frá Tone W. Trøen, forseta Stórþingsins.

@ Stortinget