14.5.2019

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Svíþjóð

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er í opinberri heimsókn í Svíþjóð 14.-16. maí 2019 í boði Andreasar Norlén, forseta sænska þingsins.  Með forseta í för eru varaforsetarnir Þorsteinn Sæmundsson og Bryndís Haraldsdóttir, ásamt Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra Alþingis, og Jörundi Kristjánssyni, forstöðumanni forsetaskrifstofu.

Steingrímur J. Sigfússon mun við upphaf heimsóknar ganga á fund Karls Gústafs XVI Svíakonungs og að því loknu heimsækja forseti Alþingis og sendinefndin sænska þingið, Riksdagen, og eiga fundi með forseta sænska þingsins og þingmönnum úr utanríkismálanefnd, fjárlaganefnd, stjórnskipunarnefnd og efnahagsnefnd sænska þingsins.  Þá er ráðgerður fundur með vinnuhópi sænska þingsins um jafnréttismál, undir forustu Lottu Johnsson, 2. varaforseta. 

Á miðvikudag eru á dagskrá heimsóknar fundir með utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, Ibrahim Baylan viðskiptaráðherra og Ann Linde, ráðherra utanríkisviðskipta og samstarfsráðherra Norðurlanda.  Jafnframt heimsækir forseti Alþingis og sendinefndin ráðhús Stokkhólms og fundar þar með forseta borgarstjórnar, Ceciliu Brinck.

Á síðasta degi heimsóknarinnar, fimmtudag, heimsækir forseti Alþingis Uppsali og mun þar sækja Göran Enander landshöfðingja heim til fundar.  Þá mun Steingrímur J. Sigfússon og sendinefndin eiga hádegisverðarfund með Agnetu Ney, formanni Íslandsfélagsins sem fagnar 70 ára afmæli í ár, og Veturliða Óskarsyni, prófessor í norrænum málvísindum.

MK_foretrade_Islands_talman_edited

Karl Gústaf XVI Svíakonungur tók á móti Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, í konungshöllinni. 
Ljósmynd © Sara Friberg, The Royal Court of Sweden.

 

 

Sendinefnd-i-Riksdagen

Sendinefndin ásamt forseta sænska þingsins, Andreas Norlén, í tröppum sænska þinghússins, Riksdagen.

Gestabok_1557840777722
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, skrifar í gestabók sænska þingsins, og gestgjafinn Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, fylgist með.

Thingforsetar_1557840778361
Þingforsetarnir og starfsbræðurnir Andreas Norlén og Steingrímur J. Sigfússon.