30.8.2017

Ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn á Alþingi

Ársfundur Vestnorræna ráðsins, samstarfsráðs þjóðþinga Færeyja, Grænlands og Íslands, fer fram í þingsal Alþingis dagana 31. ágúst og 1. september. Utanríkisráðherrar landanna þriggja funda með ráðinu við upphaf fyrri fundadags, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja, og Erik Jensen, starfandi utanríkisráðherra Grænlands. Á fundi Vestnorræna ráðsins og utanríkisráðherranna verður lögð sérstök áhersla á stöðu Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum. Að loknum þeim fundi verður blaðamannafundur með ráðherrunum í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis, fimmtudaginn 31. ágúst kl. 11:50.

Á ársfundi Vestnorræna ráðsins verður sérstök áhersla lögð á málefni norðurslóða, stöðu Vestur-Norðurlanda á svæðinu og nýfengna áheyrnaraðild ráðsins að Norðurskautsráðinu. Aukið samstarf Vestur-Norðurlanda um fríverslun, samgöngur og innviði og sjávarútvegsmál verður einnig ofarlega á blaði og þá verður sérstök umræða um um­fang plasts í Norður-Atlants­hafi og áhrif þess á líf­ríki hafs­ins.

Ársfundurinn verður sýndur beint á vef Alþingis og á Alþingisrásinni.

Að loknum ársfundi stendur Vestnorræna ráðið fyrir vestnorrænu menningarkvöldi í Norræna húsinu, föstudaginn 1. september kl. 19:30-21:00, þar sem Reykvíkingum og nærsveitungum stendur til boða að kynnast betur nágrannalöndunum Færeyjum og Grænlandi. Boðið verður upp á tónlistaratriði, vestnorrænan mat og kynningu á nágrannalöndunum. Allir velkomnir. 

Íslenski, færeyski og grænlenski fáninn.