27.10.2020

Fjarfundur forseta norrænu þjóðþinganna

Árlegur fundur forseta norrænu þjóðþinganna, sem halda átti í tengslum við Norðurlandaráðsþing á Íslandi, var haldinn í fjarfundaformi í dag vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ræddu þingforsetarnir viðbrögð þjóðþinganna við heimsfaraldrinum og þau áhrif sem hann hefur haft á störf þinganna, en einnig áhrif faraldursins á efnahag og samfélag. Þá var farið yfir það sem er efst á baugi í stjórnmálum á Norðurlöndum.

Forseti norska Stórþingsins hafði framsögu um öryggismál þjóðþinga, með áherslu á tölvuöryggi, en fyrr í haust var gerð tölvuárás á norska þingið. Ræddu þingforsetarnir áskoranir í öryggismálum, ekki síst í ljósi aukins fjölda funda sem fram fara á netinu.

Að síðustu var til umræðu starfsumhverfi þingmanna og staðan í jafnréttismálum í norrænu þjóðþingunum. Hafði forseti sænska þingsins framsögu, en það hefur á ýmsan hátt verið í fararbroddi í málaflokknum á Norðurlöndum þar sem um aldarfjórðungs skeið hefur verið starfrækt sérstök jafnréttisnefnd. Gerði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, grein fyrir þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í hér á landi með könnun á starfsháttum og vinnustaðamenningu á Alþingi, skipan sérstakrar jafnréttisnefndar og eftirfylgni könnunar með samningi við utanaðkomandi ráðgjafa með það að markmiði að bæta menningu, samskipti og vinnulag á þingi.

Fjarfundur-forseta-norraenu-thjodthinganna_SJS

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á fjarfundi með norrænum starfssystkinum sínum.