20.4.2021

Forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á fjarfundi

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, átti í morgun fjarfund með öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Gerði hann grein fyrir framvindu í starfi undirbúningshóps heimsráðstefnu þingforseta sem halda á í haust í Vínarborg, á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins og þjóðþings Austurríkis. 

Forseti Alþingis var valinn í undirbúningshópinn sem hefur það verkefni með höndum að ákveða dagskrá og fyrirkomulag síðari hluta fimmtu heimsráðstefnu þingforseta, en fyrri hluti ráðstefnunnar fór fram í fjarfundaformi sl. sumar. Að jafnaði eru heimsráðstefnur þingforseta haldnar fimmta hvert ár. Þá ræddu þingforsetarnir það sem efst er á baugi í þingstörfum og baráttuna við heimsfaraldur.