25.6.2021

Forseti Alþingis í opinbera heimsókn til Rússlands

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, verður í opinberri heimsókn í Rússlandi dagana 27. júní til 1. júlí í boði Vyacheslav Volodin, forseta Dúmunnar. Skipulag heimsóknar og framkvæmd tekur mið af aðstæðum í kórónuveirufaraldrinum en auknar sóttvarnaráðstafanir eru í opinberum byggingum þar sem fundir eru haldnir. Með forseta í för eru Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti Alþingis, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, auk Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, og Jörundar Kristjánssonar, forstöðumanns skrifstofu forseta Alþingis.

Megin áhersla heimsóknar, auk tvíhliða samskipta þjóðþinganna, er á norðurslóðamál en Rússland tók í síðasta mánuði við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslandi á ráðherrafundi í Reykjavík. Á sama tíma samþykkti Alþingi einróma nýja ályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Í stefnunni er grundvallarstefið virk þáttaka í alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins á grundvelli gilda um frið, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Jafnframt áréttar ný stefna Íslands í norðurslóðamálum að hafa skuli sjálfbæra þróun og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og setja beri umhverfisvernd í öndvegi. Ályktun Alþingis um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða má lesa í heild sinni hér.

Auk fundar með forseta Dúmunnar mun forseti Alþingis og sendinefnd eiga fundi með varaforseta Sambandsráðsins, efri deildar rússneska þingsins, og þingmönnum úr ýmsum nefndum Dúmunnar. Þá er einnig á dagskrá heimsóknar í Moskvu fundur með Vladimir Titov, 1. varautanríkisráðherra Rússlands, og vararáðherranum Anatolíj Bobrakov sem fer með málefni norðurslóða. Steingrímur J. Sigfússon og sendinefnd munu að lokinni dagskrá í Moskvu heimsækja Sankti Pétursborg nk. miðvikudag og eiga fund með forseta héraðsþingsins og ríkisstjóra héraðsins, ásamt því að kynna sér starfsemi íslenskra fyrirtækja í Rússlandi.