29.2.2016

Forseti Alþingis í vinnuheimsókn í Bretlandi 28. febrúar – 3. mars 2016

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, er í vinnuheimsókn í Bretlandi 28. febrúar til 3. mars í boði vinahóps Íslands á breska þinginu og Bretlandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.  Með forseta í för eru þingmennirnir Þórunn Egilsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson.
Á dagskrá heimsóknar í Lundúnum eru fundir með John Bercow, forseta neðri deildar breska þingsins, og barónessu D‘Souza, forseta lávarðadeildarinnar.  Jafnframt munu forseti Alþingis og þingmennirnir eiga fundi með Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins, Christopher Grayling, leiðtoga Íhaldsflokksins í neðri deildinni, Chris Bryant, leiðtoga Verkamannaflokksins í neðri deildinni,  og Angus Robertsson, formanni Skoska þjóðarflokksins.  
Þá eru ráðgerðir fundir með Norðurslóðanefnd og utanríkismálanefnd neðri deildar breska þingsins og formanni Evrópumálanefndar lávarðardeildarinnar, sem og David Liddington, ráðherra Evrópumála. Þá munu forseti Alþingis og alþingismenn heimsækja þingið í Wales og eiga fund með Rosemary Butler, forseta Walesþings, og fulltrúum þingflokka.