20.4.2018

Forseti Alþingis kynnir fullveldisárið í danska þinginu

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, átti í gær fund með Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins. Ræddu þau meðal annars leiðir til að efla samvinnu norrænu þinganna á vettvangi Norðurlandaráðs og samstarf við þjóðþing Eystrasaltsríkjanna. 

Steingrímur J. gerði Piu grein fyrir dagskrá fullveldisársins og hátíðarfundar Alþingis sem haldinn verður á Þingvöllum 18. júlí næstkomandi. Þann dag verða 100 ár frá samþykkt sambandslagasáttmálans sem undirritaður var í Alþingishúsinu og lagði grundvöll fullveldis og sjálfstæðis Íslands, 1. desember 1918. Pia Kjærsgaard mun flytja sérstakt ávarp á Þingvallafundi og kveðju dönsku þjóðarinnar á fullveldisári Íslands.

Forseti Alþingis og forseti danska þingsins