25.10.2019

Forseti Alþingis leggur áherslu á mannréttindi, loftslagsmál og réttindi kvenna í Strassborg

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, lagði áherslu á mannréttindi, loftslagsmál og réttindi kvenna í ávörpum sínum á ráðstefnu þingforseta í Strassborg 24.-25. október.

Vakti hann athygli á að þrátt fyrir skuldbindingar aðildarríkja væri víða pottur brotinn í réttindum borgaranna sem og kjörinna fulltrúa. Lýsti hann sérstökum áhyggjum af ástandinu í Katalóníu og upplýsti aðra þingforseta um að hann hefði hvatt forseta Evrópuráðsþingsins og Alþjóðaþingmannasamtakanna til að taka málefni Katalóníu á dagskrá þeirra þingmannasamtaka.

Einnig lýsti forseti Alþingis áhyggjum af loftslagsmálum og hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að taka höndum saman með öðrum þjóðum heims í baráttunni. Benti forseti á að afleiðingar hlýnandi loftslags væru enn öfgafyllri á norðurslóðum þar sem hlýnun væri tvöfalt meiri en að meðaltali og þetta viðfangsefni yrði ekki leyst nema með sameiginlegu átaki allra þjóða.

Að síðustu gerði Steingrímur J. Sigfússon jafnréttismál og stöðu kvenna í stjórnmálum og opinberri umræðu að umfjöllunarefni. Sagði hann brýnt að efla viðbrögð við kynbundnu áreiti og ofbeldi. Niðurstöður rannsóknar sem Evrópuráðsþingið og Alþjóðaþingmannasambandið stóðu að í aðildarríkjum eru á margan hátt sláandi og er sambærileg rannsókn í vinnslu á vegum Alþingis meðal þingmanna og starfsmanna skrifstofu þingsins. Jafnframt benti Steingrímur á að kynjahalli í þjóðþingum bæri vott um lýðræðishalla og að mikilvægt væri að efla hlut kvenna í stjórnmálum og opinberri umræðu.