22.10.2019

Forseti Alþingis lýsir áhyggjum af stöðu fyrrum forseta Katalóníuþings

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sendi forseta Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og forseta Evrópuráðsþingsins bréf, dagsett 21. október 2019, þar sem hann lýsir áhyggjum af þungum fangelsisdómi (11 og hálft ár) sem fyrrum forseti Katalóníuþings fékk, sem og löngu gæsluvarðhaldi á meðan á málaferlum stóð, ekki síst með hliðsjón af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Forseti kveðst í bréfinu til forseta Evrópuráðsþingsins gera sér grein fyrir að Katalónía sé ekki aðili að Evrópuráðsþinginu, heldur hluti aðildarríkisins Spánar. Engu að síður sé mikilvægt að grunngildi Evrópuráðsins um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið séu leiðarstef aðildarríkja. Þá vekur forseti Alþingis athygli á að Evrópuráðsþingið hafi tekið upp málefni einstaka ríkja í ljósi þessara grunngilda og hvetur til þess að ígrundað sé vandlega af hálfu Evrópuráðsþingsins hvort málefni Katalóníu verðskuldi ekki frekari skoðun. Loks lýsir forseti þeirri von sinni að málið megi leiða til lykta með pólitískum, lýðræðislegum og friðsamlegum hætti.

Í bréfi forseta Alþingis til forseta Alþjóðaþingmannasambandsins lýsir hann sambærilegum áhyggjum og vekur einnig athygli á að ekki er verið að ræða málefni aðila að IPU, heldur innri málefni aðildarríkisins Spánar. Forseti Alþingis lýsir á sama hátt þeirri von sinni að málið megi leysa með pólitískum, lýðræðislegum og friðsamlegum hætti í anda upprunalegs markmiðs IPU að „efla frið með samtali og þinglegum tengslum“ (e. parliamentary diplomacy).

Bréf forseta Alþingis til forseta Alþjóðaþingmannasambandsins

Bréf forseta Alþingis til forseta Evrópuráðsþingsins