26.5.2023

Forseti Alþingis og forseti kínverska Alþýðuþingsins funda

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, átti í dag fjarfund með Zhao Leji, forseta Alþýðuþingsins, þjóðþings Kína. Ræddu þeir m.a. samskipti ríkjanna og þjóðþinganna, jafnt á vettvangi alþjóðlegra þingmannafunda sem og tvíhliða samskipta.

Kína er stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu og um þessar mundir eru 10 ár liðin frá undirritun fríverslunarsamnings milli ríkjanna. Kom til umræðu mikilvægi viðskiptasambands ríkjanna, aukið vægi ferðaþjónustu og verkefni á sviði jarðhita og endurnýjanlegrar orku í Kína.

Þá ræddu þingforsetarnir alþjóðlegar áskoranir, svo sem loftslagsvá og málefni norðurslóða, mannréttindamál og stríðið í Úkraínu. Birgir Ármannson lýsti órofa stuðningi Alþingis og íslenskra stjórnvalda við málstað Úkraínu gegn ólögmætu innrásarstríði Rússlands. Þá greindi hann frá leiðtogafundi Evrópuráðsins og fundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins, sem haldnir voru í Reykjavík í síðustu viku. Undirstrikaði forseti Alþingis mikilvægi þeirra grunngilda sem Evrópuráðið byggir á; lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins.

Forseti Alþingis og forseti kínverska Alþýðuþingsins sammæltust um mikilvægi alþjóðlegra þingmannasamskipta og góðra samskipta þjóðþinganna og ríkjanna.

Fjarfundur-forseta-med-forseta-kinverska-Althyduthingsins-2023-05-26Þau tóku þátt í fjarfundinum fyrir hönd Alþingis. F.v. Hildur Edwald, sérfræðingur í alþjóðamálum, Auður Elva Jónsdóttir, fjármála- og rekstrarstjóri, Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Jörundur Kristjánsson, sviðsstjóri samskipta- og alþjóðasviðs, Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar, og Gunnþóra Elín Erlingsdóttir, lögfræðingur EES-mála.