19.10.2022

Forseti Finnlands heimsækir Alþingi

Forseti Finnlands, hr. Sauli Niinistö, heimsótti í dag Alþingi ásamt föruneyti og átti fund með Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, og varaforsetunum Oddnýju G. Harðardóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttur. Var m.a. rætt um samskipti landanna, einkum þjóðþinganna, sem eru töluverð, jafnt tvíhliða sem á vettvangi alþjóðlegs þingmannasamstarfs.

Finnar eru gestgjafar þings Norðurlandaráðs sem haldið verður í Helsinki í byrjun næsta mánaðar. Einnig bar á góma breyttar öryggisaðstæður í Evrópu í kjölfar innrásarstríðs Rússa í Úkraínu, aðildarumsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu o.fl.

Sauli Niinistö og Jenni Haukio forsetafrú eru í ríkisheimsókn á Íslandi, í boði forseta Íslands, dagana 18.–21. október. Hann hefur gegnt embætti forseta Finnlands síðan 2012 en var áður forseti finnska þingsins, auk þess að hafa gegnt ráðherraembættum. Frekari upplýsingar um heimsóknina er að finna á vef embættis forseta Íslands.

Heimsokn-Finnlandsforseta-20221019_4Forseti Finnlands, Sauli Niinistö, á fundi með forseta Alþingis, Birgi Ármannssyni, varaforsetunum Oddnýju G. Harðardóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttur, fylgdarliði og starfsmönnum skrifstofu Alþingis.