15.3.2022

Forseti norska Stórþingsins heimsækir Alþingi

Forseti norska Stórþingsins, Masud Gharahkhani, er í opinberri heimsókn á Íslandi 15.–17. mars í boði forseta Alþingis. Með stórþingsforseta í för eru þingmennirnir Morten Wold, 3. varaforseti Stórþingsins, og Kathy Lie, sem á sæti í Noregsdeild Norðurlandaráðs, auk starfsmanna skrifstofu norska þingsins og sendiherra Noregs, Aud Lise Norheim. Þess má geta að Masud er fyrsti Norðmaðurinn af erlendu bergi brotinn til að gegna þessu æðsta kjörna embætti þingsins, en hann er fæddur í Teheran í Íran.

Forseti Stórþingsins heimsótti í morgun forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannesson, á Bessastaði. Að því loknu lá leiðin í Alþingi þar sem hann fundaði með íslenskum starfsbróður sínum, Birgi Ármannsyni, forseta Alþingis. Ræddu þeir m.a. norrænt samstarf og norsk-íslenskt samstarf, auk ástandsins í Úkraínu, stöðu lýðræðis o.fl. Þá átti stórþingsforseti fund með fulltrúum í utanríkismálanefnd og mun síðar í dag hitta fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs að máli. Á dagskrá heimsóknar er einnig fundur með Katrínu Jakobsdóttur forsætisáðherra ásamt því að forseti Stórþingsins og sendinefnd munu kynna sér íslenska menningu og hugvit, auk þess að heimsækja Þingvelli.

Heimsokn-forseta-norska-Storthingsins_2

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, ávarpaði forseta Stórþingsins, Masud Gharahkhani, og sendinefndina í þingsal við upphaf heimsóknarinnar. 

Heimsokn-forseta-norska-Storthingsins_3Því næst funduðu forsetarnir og sendinefndin yfir kaffibolla í Efrideildarsal.

Heimsokn-forseta-norska-Storthingsins_4

Masud Gharahkhani ritaði nafn sitt í gestabók Alþingis í Kringlunni. 

Heimsokn-forseta-norska-Storthingsins_5

Stórþingsforsetinn og sendinefndin áttu hádegisverðarfund með utanríkismálanefnd Alþingis í fundarherbergi forsætisnefndar.

Heimsokn-forseta-norska-Storthingsins_8Að síðustu voru norsku gestirnir viðstaddir upphaf þingfundar og bað Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, þingmenn að rísa úr sætum til að votta þeim og norsku þjóðinni vináttu og virðingu.