22.5.2018

Fundur laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins í Hörpu

Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins fundar í Hörpu 22.–23. maí. Fundinn sitja 50 þingmenn frá 33 Evrópuríkjum.

Eftir hádegi miðvikudaginn 23. maí verður haldin opin málstofa undir yfirskriftinni Reynsla Íslands af baráttu gegn spillingu meðal þingmanna. Fyrirlesarar verða Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður og varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, og Jón Ólafsson, formaður Gagnsæis og formaður stýrihóps forsætisráðuneytisins um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Fjallað verður um framfylgd Íslands á tilmælum úr fjórðu úttekt GRECO, samtaka ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu. Þessi hluti fundarins, frá kl. 14.30 til um það bil 15.30, verður opinn fjölmiðlum.

Meðal annarra sem ávarpa fund laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins eru Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.

Ef nánari upplýsinga er óskað vinsamlegast hafið samband við Rósu Björk Brynjólfsdóttur, formann Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, í síma 824-6743, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, varaformann Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, í síma 845-1311, eða Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, í síma 698-3907.