22.11.2022

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 25. nóvember

Stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins fundar í Hörpu í Reykjavík föstudaginn 25. nóvember. Í stjórnarnefnd sitja varaforsetar þingsins, formenn landsdeilda, formenn flokkahópa og formenn málefnanefnda þingsins, alls um 60 þingmenn frá 46 aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Alþingi er gestgjafi fundarins og mun Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, flytja opnunarávarp. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins skipa Bjarni Jónsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson.

Þá verður haldinn viðburður undir yfirskriftinni Stafrænt kynbundið ofbeldi, í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn kynbundnu ofbeldi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála, flytur ávarp auk Maríu Rúnar Bjarnadóttur, verkefnisstjóra hjá Ríkislögreglustjóra og fulltrúa Íslands í GREVIO, og Ævars Pálma Pálmasonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. Samtímis verður hleypt af stokkunum 16 daga átaki á samfélagsmiðlum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi fastanefnda Íslands, Hollands og fleiri samstarfsríkja innan Evrópuráðsins í Strassborg.

Eftir hádegi mun Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynna formennsku Íslands í Evrópuráðinu og svara spurningum þingmanna.

Þá mun stjórnarnefnd fjalla um ályktanir og tilmæli þingsins um hlutverk Evrópuráðsins, um lýðræði á tímum neyðarástands í heilbrigðismálum, um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á borgaralegt samfélag og á íbúa í fangelsum, um öryggi aðfanga í heilbrigðiskerfinu, um áskoranir í tengslum við rakningar-öpp, um samskipti Evrópuráðsþingsins við þjóðþingið í Jórdaníu og um eftirlit þingsins með kosningum í Bosníu og í Búlgaríu.

Fundurinn stendur kl. 9:30–12:30 og 14:00–17:00 og verður streymt frá honum á vef Evrópuráðsþingsins