13.6.2017

Fundur vestnorrænna þingforseta

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, sótti fund vestnorrænna þingforseta í Nuuk á Grænlandi 12.–13. júní 2017 í boði Lars-Emil Johansen, forseta grænlenska þingsins. Auk þeirra sótti Páll á Reynatúgvu, forseti færeyska Lögþingsins, fundinn. Á dagskrá fundar var samstarf landanna þriggja, einkum þingmannasamstarf.  

Gerðu þingforsetarnir grein fyrir þeim málum sem hæst hafa borið í þjóðþingum landanna þriggja og ræddu nýja stöðu í vestnorrænu samstarfi í kjölfar þess að Vestnorræna ráðið hlaut áheyrnaraðild að Norðurheimskautsráðinu.  

Unnur Brá lagði áherslu á mikilvægi málefna norðurskautsins og aukna athygli sem norðurslóðir hljóta um allan heim, ekki síst vegna baráttu gegn loftslagsbreytingum og aukinna möguleika á vinnslu auðlinda á norðurslóðum.  Lagði hún sérstaka áherslu á að þingmenn frá Færeyjum, Íslandi og Grænlandi beittu sér með virkum hætti með þátttöku í svæðibundnu þingmannasamstarfi og Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) til að raddir íbúa norðurslóða ættu sér öfluga málsvara sem gættu hagsmuna náttúru og frumbyggja.

Vestnorraena--2-

Páll á Reynatúgvu, forseti færeyska Lögþingsins, Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis og  Lars-Emil Johansen, forseti grænlenska þingsins.