22.6.2016

Fundur vestnorrænna þingforseta á Ísafirði

Árlegur fundur vestnorræna þingforseta verður á Ísafirði, fimmtudaginn 23. júní 2016. Fundinn sækja auk Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, Páll á Reynatúgvu, forseti færeyska þingsins, og Agathe Fontain, 1. varaforseti grænlenska þingsins. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lagði til fundarstaðinn sem er fundarsalur bæjarstjórnar.

Á fundinum munu þingforsetar ræða störf þinganna og þau mál sem hæst hefur borið í stjórnmála- og þjóðlífi vestnorrænu landanna þriggja frá síðasta fundi sem haldinn var í Klakksvík í Færeyjum í júní í fyrra. Auk þess er á dagskrá fundarins umræða um mögulegan fríverslunarsamning vestnorrænu landanna þriggja og tækifæri vestnorrænna þingmanna til aukinna áhrifa á málefni norðurslóða, svo sem með umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og samstarfi við Hringborð norðurslóða (Arctic Circle).

Fundur vestnorrænna þingforseta á ÍsafirðiJörundur Kristjánsson, forstöðumaður á skrifstofu Alþingis, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, Aghate Fontain, 1. varaforseti grænlenska þingsins, Páll á Reinatúgvu, forseti færeyska þingsins, Elly Hauge Pedersen, forstöðumaður á grænlenska þinginu, Johnhard Klettheyggj, skrifstofustjóri færeyska þingsins, Anna Rein, starfsmaður á færeyska þinginu og Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri skrifstofu Alþingis.