19.9.2017

Heimsókn breskra þingmanna

Sendinefnd þingmanna úr báðum deildum breska þingsins er í vinnuheimsókn á Íslandi. Þingmennirnir eru allir í Bretlandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Þeir áttu í morgun fund með Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, þar sem samband Alþingis og breska þingsins bar hæst. 

Á meðan á dvöl þingmannanna stendur er m.a. fyrirhugað að þeir hitti forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannesson, þingmenn í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins og  fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis. Þá munu þeir heimsækja Landsvirkjun, HB Granda og kynna sér jarðhitanýtingu í Hellisheiðarvirkjun. Einnig hitta þeir að máli fulltrúa atvinnulífs og fleiri.  Á miðvikudag stendur sendiráð Bretlands á Íslandi fyrir málþingi, í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og Alþingi, með þátttöku bresku þingmannanna.

Forseti Alþingis og breskir þingmenn