21.11.2019

Heimsókn þingforseta Malaví

Catherine Gotani Hara, forseti þjóðþings Malaví, heimsótti Alþingi í dag ásamt föruneyti, skoðaði Alþingishúsið og átti fund með Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, og hitti síðan utanríkismálanefnd að máli.

Catherine-Gotani-Hara-forseti-thjodthings-Malavi_1574345754358Forseti Alþingis færir forseta Malavíþings bókagjöf.

Catherine Gotani Hara varð fyrst kvenna til að hljóta kosningu sem forseti Malavíþings, en hún náði kjöri 19. júní síðastliðinn. Á fundi þingforsetanna var meðal annars fjallað um stöðu kvenna í stjórnmálum, stöðu og viðfangsefni þjóðþinga og áskoranir samtímans. 

Catherine-Gotani-Hara-og-Steingrimur-J.-SigfussonSteingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Catherine Gotani Hara, forseti Malavíþings.

 Á fundi malavíska þingforsetans með utanríkismálanefnd var meðal annars rætt um tvíhliða þróunarsamvinnu, en Malaví er annað samstarfslanda Íslands í þróunarsamvinnu í Afríku ásamt Úganda. Fjallað var um helstu þróunarsamvinnuverkefni sem Ísland hefur staðið að í Malaví og hinn góða árangur sem þau hafa skilað. Einnig var rætt um stöðu kvenna og valdeflingu þeirra. 

Fundur-forseta-thjodthings-Malavi-med-utanrikismalanefndÁ fundi forseta Malavíþings með utanríkismálanefnd.