3.7.2018

Heimsókn varaforseta Kínverska ráðgjafarþingsins

Heimsókn varaforseta Kínverska ráðgjafarþingsins, Zhang Qingli, til forseta AlþingisSteingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók á móti Zhang Qingli, varaforseta Kínverska ráðgjafarþingsins, og sendinefnd í Alþingi þriðjudaginn 3. júlí. Kínverska ráðgjafarþingið (Chinese People's Political Consultative Conference; CPPCC) er ráðgefandi samkunda fulltrúa stjórnmálaflokka, atvinnulífs, hagsmunasamtaka og fulltrúa þjóðarbrota í Kína og er hlutverk þess líkt hlutverki ráðgefandi efri deilda sumra þjóðþinga.

Á fundinum ræddu Steingrímur og Zhang Qingli samskipti Íslands og Kína á breiðum grundvelli með áherslu á samskipti þinganna. Fyrr á þessu ári fóru forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sameiginlega heimsókn til Kína þar sem þeir áttu meðal annars fundi með Xi Jinping, forseta Kína, og Zhang Dejiang, forseta þjóðþings Alþýðulýðveldisins Kína.

Að loknum fundi í Alþingishúsinu bauð Steingrímur varaforseta Kínverska ráðgjafarþingsins og sendinefnd til hádegisverðarfundar með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi.Heimsókn varaforseta Kínverska ráðgjafarþingsins, Zhang Qingli