8.9.2021

Heimsráðstefna þingforseta haldin í Vínarborg

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sækir 5. heimsráðstefnu þingforseta sem haldin er í Vínarborg 7.–8. september í samstarfi Alþjóðaþingmannasambandsins, Inter-Parliamentary Union, og þjóðþings Austurríkis. Þessi stærsti alþjóðlegi vettvangur þingforseta hefur verið haldinn á fimm ára fresti frá árinu 2000 en vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þurfti að skipta ráðstefnunni að þessu sinni í annars vegar fjarfund í fyrra og staðfund í ár. Undirbúningur hefur staðið yfir um margra mánaða skeið og átti forseti Alþingis sæti í undirbúnings- og stýrihóp ráðstefnunnar sem hafði, meðal annars, með höndum gerð dagskrár og vann drög að lokayfirlýsingu þingforseta.

Meðal sérstakra gesta ráðstefnunnar og ræðumaður við setningu var Fawzia Koofi, fyrrum varaforseti þjóðþings Afganistans og baráttukona fyrir réttindum kvenna í Afganistan. Að setningu lokinni var gengið til dagskrár en meðal dagskrárliða eru umræður um sjálfbæra þróun og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, áskoranir og alþjóðleg viðbrögð við heimsfaraldri kórónuveiru, baráttu gegn falsupplýsingum og hatursorðræðu, kynjajafnrétti og alþjóðlegt starf þjóðþinga. Samhliða umræðum í þingsal fara fram pallborðsumræður tengdar dagskrárefnum í hliðarsölum.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var framsögumaður fyrsta dagskrárliðar ráðstefnunnar og hér má lesa ávarp hans (á ensku). Frekari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á sérstakri ráðstefnusíðu  og vef IPU.

SJS-a-5.-heimsradstefnu-thingforseta-Vinarborg-7.-8.-september-2021Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var framsögumaður fyrsta dagskrárliðar 5. heimsráðstefnu þingforseta. 
Ljósmynd © IPU