23.1.2018

Íslenskur varaforseti Evrópuráðsþingsins

Þingfundur Evrópuráðsþingsins stendur nú yfir í Strassborg og var Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, kjörin einn af varaforsetum þingsins við upphaf fundarins í gær og situr þar með í framkvæmdastjórn þingsins. 

Í framkvæmdastjórninni sitja forseti þingsins, 20 varaforsetar, formenn flokkahópa og formenn málefnanefnda. Hlutverk framkvæmdastjórnarinnar er margþætt en lýtur þó einkum að undirbúningi dagskrár þingsins, samræmingu á starfi málefnanefnda, gerð tillagna um útdeilingu verkefna til málefnanefnda, daglegri starfsemi þingsins og tengslum við aðrar fjölþjóðastofnanir.

Fundinn sækja auk Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmennirnir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Birgir Þórarinsson.