23.3.2022

Norrænt samstarf í 70 ár

Dagur Norðurlandanna er í dag, 23. mars, og er fánum norrænu þjóðríkjanna og sjálfstjórnarsvæðanna flaggað fyrir framan Alþingi af því tilefni líkt og tíðkast hefur undanfarin ár. Norrænt samstarf fagnar 70 ára afmæli í ár, en á fundi norrænna utanríkisráðherra í Kaupmannahöfn í mars 1952 var ákveðið að stofna til formlegs norræns samtarfs þjóðþinga. Í dag eru jafnframt 60 ár frá undirritun Helsingforssamningsins, sem meðal annars hefur tryggt norrænum ríkisborgurum jafnt aðgengi til náms og vinnu hvar sem er á Norðurlöndunum.

Forseti Alþingis átti í morgun fjarfund með norrænum þingforsetum í tilefni dagsins. Ræddu þeir m.a. hvernig styrkja má og efla norrænt samstarf, einkum á vettvangi þjóðþinganna. Þá ræddu þeir til hvaða aðgerða hefur verið gripið á Norðurlöndum til stuðnings Úkraínu, áskoranir norræns samstarfs og áhrif heimsfaraldursins, ekki síst á frjálsa för um Norðurlönd og sameiginlegan vinnumarkað.

Í tilefni dags Norðurlandanna og tímamótaafmælis norræns samstarfs býður forseti Alþingis norrænum sendiherrum í Reykjavík til hádegisverðarfundar þar sem mikilvægi norræns samstarf verður til umræðu.

Flaggad-a-degi-Nordurlanda-23032022Norrænu fánarnir blakta við hún fyrir utan Alþingishúsið á degi Norðurlanda, 23. mars 2022.