2.4.2012

Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 3. apríl

Þriðjudaginn 3. apríl kemur sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins saman til fundar í Þjóðmenningarhúsinu. Á dagskrá fundarins eru samskipti Íslands og ESB með áherslu á stöðu yfirstandandi aðildarviðræðna auk þess sem fjallað verður um sjávarútvegsmál, samstarf sveitarstjórna á Íslandi og í ESB, viðbrögð stjórnvalda í ESB og á Íslandi við fjármálakreppunni og græna hagkerfið.

Fundurinn er opinn fjölmiðlum og að honum loknum gefa formenn nefndarinnar, Árni Þór Sigurðsson alþingismaður og Evrópuþingmaðurinn Pat the Cope Gallagher, kost á viðtölum.

Þegar ríki sækja um aðild að Evrópusambandinu er sameiginlegri þingmannanefnd Evrópuþingsins og þjóðþings viðkomandi umsóknarríkis ætíð komið á fót. Hlutverk slíkrar nefndar er einkum að fylgjast með aðildarviðræðuferlinu. Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var stofnuð í október 2010. Nefndin er skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Auk þess situr sérstakur fulltrúi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, sem fylgist með umsóknarferli Íslands, fundi nefndarinnar. Sameiginlega þingmannanefndin kemur saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg.

Nánari upplýsingar um sameiginlegu þingmannanefndina má sjá á vef Alþingis.