26.4.2011

Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins

Annar fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins fer fram miðvikudaginn 27. apríl í Þjóðmenningarhúsinu. Á dagskrá fundarins eru m.a. samskipti Íslands og ESB þar sem Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands, Timo Summa sendiherra og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB og Bálint Ódor fulltrúi ráðherraráðs ESB flytja ávörp. Aðrir dagskrárliðir eru m.a. viðbrögð við yfirstandandi fjármálakreppu á Íslandi og í ESB, landbúnaðarstefnur Íslands og ESB, norðurslóðamál og orkumál.

Sameiginlegri þingmannanefnd, sem skipuð er þingmönnum Evrópuþingsins og þjóðþings umsóknarríkis, er ætíð komið á fót í aðildarviðræðuferli. Hlutverk hinnar sameiginlegu þingmannanefndar er að fylgjast með samskiptum Íslands og Evrópusambandsins og þá sérstaklega umsóknar- og aðildarviðræðuferlinu. Hin sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins samanstendur af 18 þingmönnum, níu frá Alþingi og níu frá Evrópuþinginu. Frekari upplýsingar er að finna á síðu nefndarinnar á vef Alþingis.