15.8.2002

Ársfundur Vestnorræna ráðsins í Stykkishólmi

Ársfundur Vestnorræna ráðsins verður haldinn í Stykkishólmi dagana 16.-18. ágúst með þátttöku þingmanna frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Fundurinn er haldinn í boði Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, en hana skipa þau Einar Oddur Kristjánsson, formaður, Hjálmar Árnason, varaformaður, Guðmundur Hallvarðsson, Gísli S. Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir og Kjartan Ólafsson.

Auk hefðbundinna starfa mun á ársfundinum verða fjallað sérstaklega um ályktanir Vestnorræna ráðsins frá fyrri árum. Þá mun fulltrúi Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytis kynna skýrslu samstarfsráðherra Norðurlandanna um stöðu vestnorrænna málefna í mismunandi ráðuneytum. Auk þess mun dr. Grétar Þór Eyþórsson, framkvæmdastjóri hjá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Byggðarannsóknastofnun Íslands, flytja erindi um byggðaþróun í vestnorrænu samhengi.

Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna ráðið árið 1985, en þar sitja 18 þingmenn, sex frá hverju aðildarlandanna. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum, samvinnu við norðurskautsstofnanir og skipulagningu á alþjóðlegum ráðstefnum.