30.9.2008

Fundur um aukið hlutverk Norðurlanda innan Sameinuðu þjóðanna

Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, tekur þátt í fundi sem félag Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð og upplýsingaskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Stokkhólmi efna til 1. október í Stokkhólmi undir yfirskriftinni „Norðurlönd sækjast eftir auknu hlutverki innan Sameinuðu þjóðanna“ þar sem sjónum verður beint að framboði Íslands til öryggisráðs SÞ.

Árni Páll Árnason fjallar á fundinum um áherslur Íslands í baráttu um sæti í öryggisráðinu og tekur að því loknu þátt í pallborðsumræðum um samvinnu Norðurlanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Aðrir þátttakendur í umræðunum verða Jan Eliasson, fyrrverandi utanríkisráðherra Svía, fyrrum forseti allsherjarþingsins og núverandi sendimaður SÞ í Darfúr, og Carl-Einar Stålvant, lektor við Varnarmálaháskólann í Stokkhólmi.