24.4.2008

Yfirlýsing þings Alþjóðaþingmannasambandsins vegna kosninganna í Simbabve

118. þing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) fór fram í Höfðaborg í Suður-Afríku dagana 13.-18. apríl. Yfir 700 þingmenn frá 130 ríkjum sóttu þingið og hefur þátttakan aldrei verið meiri.

Fundinn sóttu alþingismennirnir Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður og Þuríður Backman. Á fundi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í síðustu viku lýstu þingmenn yfir samstöðu um viðleitni þjóðarleiðtoga SADC-ríkjanna (samtök 12 ríkja í suðurhluta Afríku) til að leysa þá pattstöðu sem komin er upp vegna kosninganna í Simbabve.

Stjórnvöld Simbabve eru eindregið hvött til að taka á móti svæðisbundnum þingmannasamtökum og kosningaeftirlitsstofnunum ef til þess kemur að endurtaka þurfi kosningarnar þar í landi. Í yfirlýsingunni er einnig brýnt fyrir stjórnvöldum í Simbabve að aflétta strax hömlum á málfrelsi og þess krafist að þingið verði kallað saman eins fljótt og mögulegt er.

Á sama tíma eru þjóðþing og stofnanir lýðræðisríkja hvattar til að halda áfram að beita áhrifum sínum þar til lýðræðisleg niðurstaða kosninganna verði virt.